Guðmundur Móeses Jónsson 1917-2007 - verkstjóri fólks á vegferð til betra lífs
Örn Bárður @ 13.01 20/3/07


Nýlega hlýddi ég á bandarískan mann í viðtali á erlendri útvarpsstöð sem sagðist vera að flytja með fjölskyldu sína til Kína. Aðspurður hvers vegna í ósköpunum hann væri að flytja þangað sagði hann að þar væri land tækifæranna. Svo bætti hann við: Ef menn vildu flytja til borgar tækifæranna árið 1807 þá fóru þeir til London, árið 1907 til New York og nú, árið 2007 til Kína. Í byrjun síðustu aldar vestur á Ísafirði var land tækifæranna ekki handan hafsins, hvorki suður í Lundúnum né vestur í Nýju Jórvík og þaðan af síður í keisarans Kína. Land tækifæranna hjá mörgum ungum mönnum var einmitt fyrir Vestan, heima á Ísafirði, í Djúpinu og miðunum út af Vestfjörðum. Þeir vissu að skáldið hafði rétt fyrir sér sem orti sjómannasálminn þar sem segir:
Föðurland vort hálft er hafið, helgað þúsund feðra dáð. Þangað lífsbjörg þjóðin sótti, þar mun verða stríðið háð.
Og þeir sem trúðu á framtíðina, á vælvæðingu bátanna, nýja varðveislutækni fyrir aflann, frystinguna og á sókn inn á erlenda markaði, breyttu lífskilyrðum fólksins í landinu og færðu því nýja tíma, nýja von, nýja framtíð.
Stórt nafn - mikið hlutverk
Hann hét Guðmundur Móeses. Ekki var hann nú alltaf sáttur við að bera þetta mikla millinafn sitt, nafn forystumannsins sem forðum leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu og hélt af stað með þá til hins fyrirheitna lands þar sem smjör átti að drjúpa af hverju strái. Fræðimenn hafa haldið því fram að brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi sé fyrsta skrásetta heimild sögunnar um upphaf nútíma stjórnmála, dæmi um þjóð sem kaus að fylgja leiðtoga til nýrrar framtíðar, kaus að rísa upp úr fátækt og umkomuleysi og taka ábyrgð á eigin örlögum. Brottförin sem heitir Exodus á latínu, leiðin út, er einn af stóru viðburðunum í hjálpræðissögu Guðs sem útvaldi sér lýð og kenndi honum að trúa á einn Guð í þjóðahafi fjölgyðistrúarfólks. Og þessi þjóð lagði upp í langferð sem við þekkjum öll deili á að einhverju leyti vegna þess að við erum kristin þjóð og vitum að þessi saga öll náði hápunkti sínum í komu hans sem var og er frelsari heimsins. Við voru flest ef ekki öll helguð honum í heilagri skírn og fyrir skírnina eigum við eilíft líf. Okkur var bjargað með vatninu og þar með vísar skírnin til Móse sem fannst fljótandi í vöggu sinni í sefinu. Nafnið Móses merkir „sá sem bjargað var úr vatninu“ og nafnið Guðmundur merkir „Guðs gjöf“ eða „Guðs vernd“. Vestfirðingar gáfu börnum sínum gjarnan nöfn úr Biblíunni forðum daga. Með þeim sið gerði fólk bæn sína til Guðs, bæn fyrir barni í ótryggum heimi og nærði þar með þá von í brjósti sér að vel rættist úr.
Ætt og uppruni
Hann var sonur Jóns Hálfdánarsonar f. 3. okt. 1880, d. 1925 og Jensínu Móesesdóttur, f. 9. mars 1889, d. 24. des. 1963. Jón var ættaður úr Bolungavík en Jensína úr Djúpinu. Ég leyfi mér að geta þess að langafi minn, Jón Örnólfsson, var fjórmenningur við Jensínu, bæði komin af Snæbirni Kolbeinssyni og konu hans Valdísi. En langamma mín, Rannveig Engilbertsdóttir, var þremenningur við langömmu Guðmundar Móesesar, Sigríði Halldórsdóttur sem var móðir Guðrúnar Halldóru Níelsdóttur, móður Jóns Hálfdánarsonar. Jæja, nóg að sinni um langsótta ættfræði! Guðmundur og afkomendur hans eru auðvitað Gromsarar eins og flestir vita en það er ég ekki hins vegar þrátt fyrir þennan skyldleika í framættum.
Systkini
Systkini Guðmundar voru Þorbjörg f. 1906, (móðir Ingólf, Jóns og tvíburanna, Óskars og Hauks Eggertssona), Björg Sigríður f. 1911 (Bubba, mamma Jenna Kristmanns og Didda Bubbu) og Garðar f. 1915 (þjónn í Rvk. faðir Borgars leikara). Þau eru nú öll látin.
Guðmundur fæddist í Hnífsdal en fluttist með fjölskyldu sinni til Flateyrar sem barn og þaðan til Reykjavíkur þar sem faðir hans hafði ráðið sig í skipspláss á togaranum Leifi heppna. Jón fórst með því skipi í Halaveðrinu mikla árið 1925 en þá var Guðmundur á áttunda ári. Menn höfðu mikla trú á sjóhæfni togara. Þeir voru álitnir vera „sjóborgir“ – víggirtar járni í stórum skrokki með öfluga vél og færir hvaða sjó sem vera skyldi. Fyrstu togararnir sem Íslendingar eignuðust voru auðvitað miklu stærri en skúturnar, en í samanburði við síðari tíma skip voru þeir litlir. Trúin á togarana var mikil í kjölfar fyrra stríðs en svo skall ógæfan yfir þegar 3 íslenskir togarar fórust og með þeim 67 menn. Þetta var laugardaginn 7. febrúar 1925. Gríðarmikið norðanveður skall á Vestfjörðum með miklu særoki og ísingu. Flestir togaranna voru á veiðum á Halamiðum. „Halaveðrið er frægt að ósköpum í íslenskri sjávarútvegssögu, enda mannskæðasta ofviðri sem gerði hér á 20. öld. Það átti einnig eftir að breyta viðhorfi manna til togara, en fram að þessu höfðu menn nánast trúað því að togarar gætu ekki farist á rúmsjó.“ (http://www.maritimemuseum.is/fraedsla/aldarsaga-togara/)
Breyttar aðstæður, ný tækifæri
Jensína flutti aftur vestur og settist að með börnin á Ísafirði. Hún varð að leggja hart að sér til að lifa og komast af og koma börnunum til manns. Guðmundur lærði fljótt að bjarga sér. Hann gekk í skóla á Ísafirði en fór ungur að vinna og tók því sem var í boði var hverju sinni. Hann fór ungur til sjós og sýndi snemma að í honum bjó festa og dugnaður. Hann varð skipstjóri ungur á vb. Dan en fór fljótt í land því þar voru að skapast ný tækifæri. Föðurbróðir hans, Hálfdán Hálfdánarson, kallaði hann með sér ásamt öðrum til stofnunar nýs fyrirtækis er hlaut nafnið Norðurtanginn h.f. og þar átti hann eftir að starfa allan sinn starfsaldur. Þetta var árið 1942 en þá var Guðmundur Móeses 25 ára gamall. Senn leið að lokum síðari heimsstyrjaldar og allt breyttist í Evrópu og Bandaríkjunum, markaðir opnuðust og ný tækifæri sköpuðust, ný tækni ruddi sér til rúms bæði á sjó og í landi. Guðmundur vann lengst af sem verkstjóri. Hann leiddi fólkið eins og nafni hans forðum, leiddi það til nýrrar framtíðar og skapaði því störf og lífsviðurværi, vakti yfir því og verkefnum þess í því augnamiði að afurðirnar skiluðu sem mestum arði fyrir fyrirtækið og þar með einnig fyrir fólkið. Á Ísafirði voru stólpar bæjarlífsins í atvinnulífi, lungann úr síðustu öld, frystihúsin tvö, Íshúsfélagið og Norðurtanginn, rækjuverksmiðjurnar, skipasmíðastöðvarnar, ásamt verslun og þjónustufyrirtækjum sem saman gerðu Ísafjörð að sterku samfélagi duglegs fólks. Dapurlegt er að heyra fréttir frá Ísafirði um þessar mundir þegar búið er að kippa stoðunum undan lífi fólksins og því hefur ekki tekist að reisa sér nýjar.
Maki og börn
Guðmundur kynntist á Ísafirði árið 1946, Ragnheiði Guðrúnu Loftsdóttur frá Bólstað í Steingrímsfirði. Þau gengu í hjónaband í júlí 1947. Þau hófu búskap í Tangagötu 29 á efri hæð. Björg Jónsdóttir systir hans bjó á neðri hæðinni ásamt fjölskyldu sinni. Var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna og vinátt mikil og samstaða. Árið 1957 flutti fjölskyldan í nýtt hús að Sundstræti 43 sem þau létu byggja. Þar bjuggu Guðmundur og Ragnheiður til ársins 1976 en þá slitu þau samvistir. Með þeim var þó góð vinátta síðar og gagnkvæm virðing. Börn þeirra eru: 1) Jensína f. 19. feb. 1948, fv. maki hennar er Björn Hermannsson og eiga þau 4 börn og 9 barnabörn. 2) Ingigerður Anna f. 13. júlí 1949, maki hennar er Sigþór Sigurðsson og eiga þau 3 börn og 8 barnabörn. 3) Rúnar f. 23. mars 1952, maki hans er Elísabet Pálmadóttir og eiga þau 4 börn og 8 barnabörn. 4) Katrín f. 8. júní 1954, maki hennar er Hans Óskar Isebarn og eiga þau 3 börn og 3 barnabörn. 5) Viktor f. 9. júlí 1963, maki hans er Margrét Dröfn Óskarsdóttir og eiga þau 3 dætur.
Seinni kona
Guðmundur kvæntist öðru sinni árið 1984, Sigrúnu Stellu Ingvarsdóttur frá Ísafirði. Hún á 5 börn frá fyrra hjónabandi sinum með Ágústi Haraldssyni. Þau eru Herbjörg, Inga Sigríður, Hrönn, Ingvar og Jón Þór. Guðmundur tók þeim öllum vel og þau honum og gott samband hefur verið á milli fólks í báðum fjölskyldum.
Karakter, hæfileikar, húmor
Og nú þegar hann er horfinn minnast börnin þess að hann var alltaf til staðar, ávallt til taks, íhugull og ráðagóður. Hann hafði ekki mörg orð um hlutina en lét verkin fremur tala. Þau minnast þess að oft sagði hann: „Aldrei að segja aldrei“ – og átti þá við að gott væri að halda framtíðinni opinni og loka sig ekki af í þrjósku og stífni. Og svo minnast þau þess líka að hann sagði gjarnan við þau: „Talað orð verður ei aftur tekið.“ Víst er að sjálfur hélt hann það síðara í heiðri enda orðvar og fámáll, einkum um sjálfan sig.
Guðmundur var myndarlegur maður á velli, svipmikill, traustur og öflugur í öllum verkum sínum. Og það var með hann eins og aðra sem stóðu fyrir öflugum atvinnurekstri á Ísafirði forðum daga að þeir bárust ekki á í ytri efnum, heldur lifðu með fólkinu og eins og fólkið enda þótt efnin væru meiri. Lífsmottó þessara manna var að láta hendur standa fram úr ermum, láta fyrirtækið ganga til að tryggja fólkinu atvinnu og lífsviðurværi. Og þeir Norðurtangamenn stóðu þétt saman hver með sína sérþekkingu og ráku fyrirtæki sitt af myndarskap og dugnaði. Guðmundur hafði einstaka hæfileika til að láta vinna úr aflanum sem barst að landi, vinna hann rétt, í réttar umbúðir og tók hann þá mið af markaðnum hverju sinni, eftirspurn og verði og gat með undraverðum hætti haldið þessum upplýsingum öllum í höfði sér og reiknað dæmið út með ótal breytum, eins og það heitir í dag. Nú getur þetta enginn nema með öflugum tölvubúnaði. En svona var nú stærðfræðilegur hluti heila hans fullkominn enda þótt skólagangan væri stutt. Og það var ekki bara í fiskinum sem hann gat reiknað út og spekúlerað heldur ekki síður í bridsinu sem hann spilaði af mikilli ástríðu alla tíð. Þar gat hann af innri eðlisávísun reiknað út ótrúlegustu hluti án þess að læra nein sérstök kerfi sem bridsspilarar leggja sig eftir að læra. Hann spilaði eiginlega eftir sínu eigin kerfi, taugakerfinu segja börnin hans, og fann á sér gang leiksins, sálarlíf meðspilara og ekki síður mótspilara. Bridsið var kærkomin hvíld frá plampinu á hörðum steingólfum frystihússins þar sem hann var nær alla daga og stundum kvöld og nætur. Hann hafði gaman af að hitta félagana og taka í spil, fá sér í glas og glíma við þessa íþrótt hugans. Margar ferðirnar fór hann með félögum sínum og tók þátt í mótum fram á elliárin. Arnar Geir Hinriksson rifjaði upp sögu í mín eyru um það þegar þeir voru eitt sinn á Hótel Loftleiðum að loknu bridsmóti og sátu þeir Magnús Aspelund og Alfreð heitinn Alfreðsson, hlið við hlið uppi á herbergi og töluðu mikið um brids. Mósi - eins og hann var nú oftast kallaður en nafnið var auðvitað bara gælunafn en aldrei uppnefni – sat og hlustaði á ungu mennina sem töluðu fjálglega um frammistöðu sína, stóð hægt á fætur, klappaði létt á koll þeirra og sagði: „Þeir tala gott brids þessir - en að spila!“ Fleir voru orðin ekki en allir vissu hvað Mósi meinti, hann sem á eina bridssögn kennda við sig, Mósagrand. Seinna sagði Addi Geir við hann – en hann var duglegur að heimsækja hann og fara með hann út og suður að hitta men og sjá staði - að réttast væri að hann réði sig í vinnu til að fara með sig um landið og spila brids. Þá svaraði Guðmundur með hægð: „Menn veraða nú að geta eitthvað!“
Breytingar í sjávarútvegi - kvótakerfið Árið 1996 er hann var tæplega áttræður seldi hann hlut sinn í Norðurtanganum ásamt öðrum eigendum. Þá var búið að bylta fiskveiðikerfinu á Íslandi og var hann ekki trúaður á framgang þess kerfis. Þeir sem staðið höfuð í útgerði og fiskverkun mestan hluta aldarinnar á Ísafirði töldu þetta vera bráðabirgðafyrirkomulag og vildu ekki taka þátt í braskinu sem síðar varð og alþjóð þekkir. Kvótamálið er umdeilt og ég ætla ekki að segja meira um það hér enda þetta ekki opinn umræðufundur heldur útför mæts manns þar sem presturinn er einn á mælendaskrá. Guðmundur varð að láta í minni pokann fyrir kerfisbreytingu við starfslok og átti þá hlut í fyrirtæki sem verið hafði í basli síðustu árin, sem það var rekið af honum og félögum hans. Afraksturinn var að vonum drjúg upphæð en hefði án efa orðið mun stærri ef þetta umdeilda kerfi hefði ekki lagt sjávarútveginn nærri því í rúst á Vestfjörðum. Í grunninn var hann jafnaðarmaður í hugsun en fylgdi þó sjálfstæðismönnum að málum lengst af sem atvinnurekandi, en honum mislíkaði vegferð flokksins hin síðari árin og varð því hálf vegalaus í pólitík undir það síðasta eins og margir fleiri. Mér er sagt að Ísfirðingar beri ekki vondan hug til þeirra sem áttu Norðurtangann. Þeim var og er ljóst að þessir menn voru búnir að vinna sínum bæ vel um áratugaskeið og voru vel að því komnir að eiga einhvern sjóð á ævikvöldi. Um hann verður hvorki sagt að hann hafi verið kvótakóngur eða sægreifi. Hann var duglegur maður sem unnið hafði hörðum höndum alla tíð. Hann braust út úr fátækt og vann í þágu þjóðfélagsins meðan stætt var. Hann er kvaddur af margmenni hér í Fossvogskirkju í dag af þakklátu fólki. Og víst er að fólkið sem vann undir hans stjórn og með honum fyrir vestan í gegnum árin ber hlýjan hug til þessa trausta og góða manns enda bar hann hag þess fyrir brjósti á hverri tíð, var vakinn og sofinn yfir líðan þess og stuðlaði að því að hver og einn lærði einföldustu og bestu handtök og verklag. Einhverju sinni átti Jón Eggertsson í einhverju basli með fólkið í vinnslunni og varð þá að orði: „Það má ekkert segja við þessar heilögu kýr hans Mósa.“
Kveðjur
Ég flyt ykkur kveðjur dóttursyni Guðmundar, Bjarka Sigþórssonar, sem er á sjó og frá sonarsyni hans, Guðmundi Ragnari Rúnarssyni og fjölskyldu hans í Svíþjóð og frá bræðrunum Eggerti og Pétri Jónssonum sem báðir eru staddir í útlöndum.
Félagsstörf og fótbolti
Guðmundur Móeses var dyggur félagsmaður í Oddfellowreglunni. Tók hann virkan þátt í stúkustarfi í ein 40 ár og lagði góðum málum lið undir merkjum þess góða félagsskapar. Reglubræður hans votta minningu hans virðingu hér í dag með heiðursverði en hann var í stúkunni Gesti en það eru bræður úr stúkunni Snorra goða í Hafnarfirði sem standa hér í dag en sú stúka hefur orðið félagslegt heimili margar ísfirskra Oddfellowa hér syðra. Áhugamálin voru fleiri og ég nefni brennandi áhuga hans á knattspyrnuliðinu Manchester United. Fór hann á gamalsaldri til Old Trafford með sonum sínum og sá liðið vinna frækilegan sigur.
Sigurliðið
Já, það er jafnan gott að halda með vinningsliði í fótbolta. Knattspyrna er skemmtileg og veitir mörgum ánægju. Og lífið er skemmtilegt, í það minnsta á köflum. En stundum syrtir í álinn og svo kemur hið mikla veður, hið andlega Halaveður, sem tekur okkur öll í fyllingu tímans. Og hvar er þá skjól að finna? Hver verður exódus, útgönguleiðin þá? Hver leiðir hópinn þá í gegnum hafið eins og Móses gerði forðum? Við vitum svarið? Við þekkjum hann, hverjum við vorum helguð sem ómálga börn. Þá vorum við vígð eilífðinni, vígð honum sem skáldið kallar „líknargjafann“ er hann yrkir og segir í sjómannasálminum:


Líknargjafinn þjáðra þjóða,
þú, sem kyrrir vind og sjó,
ættjörð vor í ystu höfum
undir þinni miskunn bjó.
Vertu með oss, vaktu hjá oss,
veittu styrk og hugarró.
Þegar boðinn heljar hækkar,
Herra, lægðu vind og sjó.

Föðurland vort hálft er hafið,
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju bjarmi
skín af Drottins náð. Föðurland
vort hálft er hafið, hetjulífi’
og dauða skráð.

Þegar brotnar bylgjan þunga,
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll,
vertu ljós og leiðarstjarna,
lægðu storm og boðaföll,
líknargjafinn þjáðra þjóða,
þegar lokast sundin öll.


KR-United


Þá er gott að vera í sigurliði hans sem hafði mátt til að lægja vind og sjó, hafði mátt til að takast á við dauðann sjálfan og leggja hann að velli er hann dó á krossins tré og reis upp af gröf. Kirkja Krists er vinningsliðið eða eins og ég segi þeim í Vesturbænum, í Neskirkju þar sem ég þjóna, en þar stendur KR á altarinu, ekki fyrir knattspyrnuliði okkar í þeim borgarhluta, heldur stendur það fyrir Krist. Kirkja Krists er „KR United“ sem er búin að vinna alla leiki fyrirfram. Við erum í því liði, sigurliðinu stærsta.
Drottinn, þinnar ástar óður endurhljómi’ um jörð og höf. Breiddu þína blessun yfir blóma lífs og þögla gröf. Vígi’ og skjöldur vertu þeim, sem vinda upp hin hvítu tröf. Drottinn, þinnar ástar óður endurhljómi’ um jörð og höf.
(Sb. 1945 - Jón Magnússon)
Guð geymi ykkur, kæra fjölskylda, frændfólk og samferðafólk Guðmundar. Drottinn gefi okkur náð til þess að varðveita góðar minningar en fela það sem var sárt og erfitt miskunn hans, náð og fyrirgefningu. Guð gefi okkur öllum náð til þess að halda okkur við sigurliðið mesta, kenni okkur að lifa og deyja í trú á Krist Jesú sem er „sigrarinn dauðans sanni“. Blessuð sé minning Guðmundar Móesesar Jónssonar. Amen.
- - -
Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson um
Guðmund Móeses Jónsson fv. stofnanda og verkstjóra Norðurtangans h.f. á Ísafirði 1917-2007
Ritningarlestur 2. Mósebók 15. kafli, vers 1a og 2-3. Guðspjall: Jóhannes 6.35-40
url: http://ornbardur.annall.is/2007-03-20/gudmundur-moeses-jonsson-verkstjori-folks-a-vegferd-til-betra-lifs/